Innlent

Hátt í fimmtíu milljónir söfnuðust fyrir krabbameinssjúk börn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri SKB, er hrærður vegna þess árangurs sem náðist í gær.
Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri SKB, er hrærður vegna þess árangurs sem náðist í gær.
Rúmar 43 milljónir söfnuðust í söfnuninni Á allra vörum sem fram fór fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna á Skjá einum í gær. Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Styrktarfélagsins, segir að upphæðin verði notuð til þess að byggja hvíldarheimili fyrir krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra.

Óskar segir að slíkt athvarf sé nauðsynlegt þegar að börnin hafi verið í mjög harðri meðferð og erfiðum aðstæðum „Fjölskyldurnar eru svo sundraðar á meðan að á þessu stendur," segir Óskar.

„Ég vil bara skila þakklæti frá félaginu og félagsmönnum öllum. Það gríðarlegur fjöldi fólks búið að leggja á sig ómælda vinnu til þess að gera þáttinn að veruleika. Við erum bara hrærð yfir árangrinum. Okkur finnst bara ótrúlegt hvað þjóðin er að sýna mikinn samhug á þessum tíma," segir Óskar og vísar til efnahagsástandsins sem hefur ríkt undanfarna mánuði.

Söfnunarsíminn verður opinn næstu tvo til þrjá daga þrátt fyrir að sjónvarpsdagskránni sé lokið. Númerin eru 903 1000 fyrir þá sem vilja gefa 1.000 kr., 903 3000 fyrir 3.000 kr. og 903 5000 fyrir 5.000 kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×