Viðskipti innlent

Atorka seldi Amiad á sléttu

Atorka Group, sem Magnús Jónsson stýrir, hefur selt stóran hlut sinn í ísraelsku fyrirtæki.
Atorka Group, sem Magnús Jónsson stýrir, hefur selt stóran hlut sinn í ísraelsku fyrirtæki. Markaðurinn/Hörður

Ísraelski einkaframtakssjóðurinn (e. Private Equity Fund) Viola Partners, hefur keypt fjórðungshlut Atorku Group í ísraelska fyrirtækinu Amiad Filtration Systems.

Amiad framleiðir og dreifir vatnshreinsibúnaði og síur og selur til rúmlega 70 landa. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Ísrael.

Viola Partners greiddi tíu milljónir Bandaríkjadala, fyrir hlutinn. Það gildir tæpum 1,3 milljörðum íslenskra króna, á gengi gærdagsins. Það er rétt yfir markaðsvirði, samkvæmt upplýsingum ísraelska netmiðilsins Globes.

Atorka hóf að kaupa hlutabréf Amiad árið 2006 og bætti jafnt og þétt við sig fram til síðasta árs. Félagið kemur út á sléttu eftir söluna í íslenskum krónum talið.

Salan er hluti af þeirri stefnumörkun Atorku að einblína á færri en stærri verkefni, samkvæmt upplýsingum frá Atorku Group.

Amiad var stofnað árið 1962 og selur nú vörur sínar í yfir 70 löndum. Það var skráð á AIM-hliðarmarkaðinn í bresku kauphöllinni í Lundúnum fyrir fjórum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×