Innlent

Pör sem vilja ættleiða líða fyrir fjársvelti í góðærinu

Ættleiðingum fækkað Flest börn sem íslenskir foreldrar hafa ættleitt undanfarin ár hafa komið frá Kína, en nú hefur ættleiðingum þaðan fækkað verulega.Fréttablaðið/AP
Ættleiðingum fækkað Flest börn sem íslenskir foreldrar hafa ættleitt undanfarin ár hafa komið frá Kína, en nú hefur ættleiðingum þaðan fækkað verulega.Fréttablaðið/AP

Einfaldar breytingar á íslenskum reglum um ættleiðingar gætu aukið möguleika íslenskra hjóna á því að fá að ættleiða börn erlendis frá, segir Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar. Félagið skorar á dómsmálaráðherra að breyta reglunum sem fyrst.

„Dómsmálaráðherra hefur talað eins og hún hafi mikinn skilning á okkar málum og við væntum þess að fara að sjá verulegar breytingar á næstunni," segir Hörður.

Um 120 íslensk hjón bíða nú eftir því að geta ættleitt börn. Biðtíminn hefur lengst umtalsvert undanfarið og geta pör sem sækja um í dag vonast til að fá barn eftir þrjú til fjögur ár. Á síðasta ári voru þrettán börn ættleidd til landsins og allt stefnir í sama fjölda í ár, segir Hörður.

Biðlistar hafa lengst mikið undanfarin ár og segir Hörður það afleiðingu þess að ættleiðingarfélögum hafi verið haldið í fjársvelti á þenslutímabilinu.

Flest pör sem hafa ættleitt börn á undan­förnum árum hafa ættleitt frá Kína, en nú hefur stórlega dregið úr ættleiðingum frá landinu. Sökum þess að málaflokkurinn hefur verið í fjársvelti undanfarin ár hefur ekki verið komið á ættleiðingarsambandi við nema örfá lönd, segir Hörður. Því líði fólk sem vilji ættleiða fyrir fjársveltið úr góð­ærinu.

Fjórðungur fólks á biðlista, um 30 pör, mun detta út af biðlistum á næstunni sökum aldursmarks í íslenskum reglum.

Áður en hægt er að ættleiða börn erlendis frá þarf að fá samþykki frá íslenskum dómsmálayfirvöldum. Þeir sem fá slíkt samþykki mega ekki vera eldri en 45 ára, og það gildir að hámarki í fjögur ár, segir Hörður.

Þar sem bið eftir börnum hefur lengst er fjöldi fólks nú að falla á tíma. Eftir að samþykki íslenskra stjórnvalda renni út sé úti um draum þessara para um að eignast barn. Með því að leyfa samþykkinu að gilda lengur sé tekið fyrir þetta vandamál, enda til dæmis ekkert aldurshámark þegar fólk er á annað borð komið á biðlista í Kína.

Íslensk ættleiðing þrýstir einnig á dómsmálayfirvöld að heimila fólki að vera á biðlistum eftir barni í fleiri en einu landi í einu, segir Hörður. Fólk sem þegar sé í biðröð í einu landi eigi að fá möguleika á því að sækja um í öðru landi án þess að falla út af biðlistum sem það hafi jafnvel verið á árum saman. Það muni stytta bið fólks eftir því að fá að ættleiða barn.

Íslenska reglugerðin er svipuð og á hinum Norðurlöndunum, en annars staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, mega pör vera á fleiri en einum biðlista, segir Hörður.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×