Viðskipti erlent

Lögsókn hafin gegn gamla Glitni í Noregi

Fjórir af fyrrum viðskiptavinum Glitnis í Noregi, sem nú heitir BNbank, telja sig hlunnfarna af bankanum og ætla í mál gegn honum.

Þetta kemur fram á vefsíðunni e24.no í dag. Um er að ræða kaup viðskiptavinanna á fjármálagerningi þar sem bankinn veitti þeim lán til að setja síðan inn á hávaxtareikning.

Lögmaðurinn Solveig I. Lindemark segir að upplýsingar þær sem viðskiptavinirnir fengu hjá Glitni hafi verið "villandi, rangar og takmarkaðar. Þessum viðskiptum átti aldrei að mæla með, selja eða samþykkja," segir Lindemark.

Viðskiptavinirnir fjórir sem um ræðir fjárfestu fyrir 3,6 milljónir norskra kr. eða um 60 milljónir kr. í þessum fjármálapakka Glitnis.

"Skjólstæðingar mínir stóðu í þeirri trú að þetta væri sparnaðarleið fyrir þá," segir Lindemark. "Í staðinn var þetta lántaka þar sem féið var sett inn á hávaxtarekninga. Hver lánar fé til að setja inn á hávaxtareikninga?" spyr Lindemark. "Þetta er alger heimska."

Fram kemur í ársuppgjöri Glitnis í Noregi fyrir síðasta ár að bankinn bauð og seldi svipaða fjármálapakka fyrir um 2,6 milljarða norskra kr. eða sem svarar til um 42 milljarða kr.

Björn Richard Johansen fjölmiðlafulltrúi BNbank vill ekki tjá sig um málið þar sem þetta er dómsmál og vísar að öðru leyti til uppgjörsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×