Samkvæmt upplýsingum úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þá hafa þrír menn fengið náðun undanfarin tvö ár en það er mjög sjaldgæft að því úrræði sé beitt. Ritari náðunarnefndar, lögfræðingurinn Skúli Þór Gunnsteinsson, segir að í slíkum tilvikum sé nær alltaf um alvarlega veika einstaklinga að ræða sem hafa hlotið vægar refsingar.
Birgir Páll Marteinsson, sem dæmdur var í sjö ára fangelsi í Færeyjum vegna tengsla við Pólstjörnumálið svokallaða, sagði í viðtali í gær í Kastljósi að hann hyggðist sækja um náðun hér á landi. Ástæðan er sú að hann telur að á sér hafi verið brotið við málsmeðferð í Færeyjum þar sem hann var dæmdur. Hann sat að auki í einangrun nær allan tímann sem hann beið réttarhalda.
Alls sóttu 23 einstaklingar um náðun á síðasta ári, sem er mikil fjölgun frá því sem áður var, samkvæmt dómsmálaráðuneytinu, en þar af var 21 umsækjanda hafnað. Tveir umsækjendur bíða enn eftir niðurstöðu sinna mála.
Þrír náðaðir á tveimur árum
