Fótbolti

Kaka lét hjartað ráða för

Kaka hafði skaparann með í ráðum þegar hann lá undir feldi
Kaka hafði skaparann með í ráðum þegar hann lá undir feldi AFP

Brasilíumaðurinn Kaka hjá AC Milan segir að hjartað hafi ráðið för þegar hann ákvað í gærkvöld að ganga ekki í raðir Manchester City fyrir hæsta kauverð sögunnar.

Manchester City var tilbúið að bjóða ítalska félaginu yfir 100 milljónir punda fyrir brasilíska snillinginn, en ekkert varð úr því eftir stíf fundarhöld á Ítalíu.

"Mér finnst ég vera á frábærum stað þar sem allir elska mig og því vil ég vera um kyrrt. Fjölskylda mín leyfði mér að hugsa málið og ég átti aldrei í deilum við föður minn eins og einhver hélt fram. Ég hlustaði á hjartað eins og margir ráðlögðu mér," sagði Kaka og bætti við að hann vildi ekki yfirgefa Milan.

"Það er frábært fólk hjá félaginu eins og Barlusconi og Leonardo, sem er ekki bara framkvæmdastjóri heldur vinur minn. Ég hef aldrei beðið um launahækkun og mun ekki gera. Milan hefur alltaf reynst mér vel og hækkað launin mín þegar það hefur þótt viðeigandi. Ég er þeim afar þakklátur," sagði Kaka.

Hann segist hrærður yfir þeim stuðningsyfirlýsingum sem honum hafa borist á síðustu dögum.

"Fólkið sýndi mér stuðnings eftir leikinn á laugardaginn og börnin mín hafa teiknað myndir handa mér og skorað á mig að fara hvergi. Það var yndislegt. Ég man þegar ég fór frá Sao Paolo, þá var mér mótmælt, en að þessu sinni stóðu allir við bakið á mér. Ég er trúaður maður og það eru ekki alltaf föst rök á bak við Guðs veg," sagði miðjumaðurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×