Viðskipti innlent

Kaupmáttur á enn eftir að rýrna

Kaupmáttur launa dróst saman um eitt prósent milli apríl og maí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

Kaupmátturinn hefur þá lækkað um 10,6 prósent frá því að hann náði sögulegu hámarki í síðustu uppsveiflu í upphafi síðastliðins árs, að því er Greining Íslandsbanka bendir á í umfjöllun sinni í gær. „Hefur kaupmáttur launa nú ekki verið jafn lítill síðan í lok árs 2003. Reikna má með því að kaupmáttur eigi enn eftir að rýrna á komandi mánuðum," segir þar.

Launavísitala í maí er 356 stig og hækkaði um 0,2 prósent frá fyrri mánuði.

Engu að síður má gera ráð fyrir því að launavísitalan hækki nokkuð á næstunni, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans, en þar er vísað til samkomulags þess sem náðst hefur á vinnumarkaði um að almennir launataxtar muni að líkindum hækka um tæpar 6.750 krónur í næsta mánuði og aftur um sömu upphæð í nóvember. „Í kjarasamningi sem stærstu aðildarfélög ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér í febrúar 2008 var kveðið á um 18.000 króna launahækkun frá 1. febrúar 2008.

Í mars 2008 hækkaði launavísitalan um 1,2 prósent á milli mánaða og í apríl nam hækkunin 0,9 prósentum en samningarnir komu ekki að fullu til framkvæmda fyrr en í apríl. Hækkunin var að stærstum hluta til komin vegna kjarasamnings ASÍ og SA og má því gróflega áætla að hækkunin nú skili sér í um 0,7 prósenta hækkun launavísitölunnar í júlí," segir í Hagsjánni. - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×