Enski boltinn

Unglingurinn tryggði United ótrúlegan sigur á Villa

Alex Ferguson faðmar Macheda eftir gullmarkið hans í dag
Alex Ferguson faðmar Macheda eftir gullmarkið hans í dag AFP

Manchester United er komið aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni eftir ótrúlegan 3-2 sigur á Aston Villa á Old Trafford í dag.

Fátt benti til annars en að Aston Villa væri að vinna sinn fyrsta sigur á Old Trafford síðan árið 1983 þegar liðið var 2-1 yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en hinn 17 ára gamli Federico Macheda tryggði United sigurinn með glæsilegu marki þegar komið var fram í uppbótartíma.

Norðmaðurinn John Carew átti fyrsta færi leiksins þegar hann skallaði í stöngina á United markinu, en það var Cristiano Ronaldo sem kom liðinu yfir með marki beint úr aukaspyrnu.

Villa jafnaði verðskuldað þegar Carew skallaði sendingu Gareth Barry í netið og það var svo Gabriel Agbonlahor sem stakk upp í áhorfendur á Old Trafford og kom Villa yfir 2-1.

Cristiano Ronaldo skoraði 20. mark sitt á leiktíðinni upp úr engu og jafnaði fyrir United þegar skammt var til leiksloka og það var svo ítalsku unglingurinn sem tryggði United mjög dýrmæt þrjú stig með glæsilegu skoti í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið.

Manchester United hefur nú hlotið 68 stig og er komið aftur í toppsætið og á liðið leik til góða á Liverpool sem er í öðru sæti með 67 stig. Aston Villa er enn sex stigum á eftir Arsenal og situr í fimta sæti deildarinnar, nú aðeins einu stigi á undan Everton.

Manchester United 3 - 2 Aston Villa

1-0 Cristiano Ronaldo ('14)

1-1 J. Carew ('30)

1-2 G. Agbonlahor ('58)

2-2 Cristiano Ronaldo ('80)

3-2 F. Macheda ('90) 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×