Innlent

Framhald á svipugöngum Vinstri grænna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson er afar óánægður með það að málið skyldi hafa verið tekið úr nefnd. Mynd/ GVA.
Tryggvi Þór Herbertsson er afar óánægður með það að málið skyldi hafa verið tekið úr nefnd. Mynd/ GVA.
Sjálfstæðismenn eru mjög ósáttir við að Icesave málið skyldi hafa verið tekið út úr efnahags- og skattanefnd, segir Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Málið verður ekki rætt frekar í efnahags- og skattanefnd en Tryggvi telur að enn séu að berast nýjar upplýsingar á hverjum degi sem muni hafa áhrif á niðurstöðu málsins þegar um það verða greidd atkvæði á Alþingi.

„Sérstaklega erum við ósátt við þetta af því að það liggur ekkert á því að taka þetta mál út," segir Tryggvi og bendir á að það sé ekki búið að ákveða hvenær málið verði tekið úr fjárlaganefnd. „Hver dagur sem málið hefði verið lengur inni, því betra, og þar af leiðandi skiljum við ekki þessi vinnubrögð," segir Tryggvi.

Tryggvi segist telja sig vita að einn fulltrúi Vinstri grænna sé á móti málinu og hafi tekið undir þau sjónarmið sem minnihlutinn hafi verið með. „Hún mætir ekki á fund og það er sendur varamaður sem tryggir meirihluta í nefndinni til að það sé hægt að taka málið út úr nefnd. Þetta er svona áframhald á þeim svipugöngum sem Vinstri grænir virðast vera í," segir Tryggvi.

Tryggvi segir það vera alveg klárt mál að minnihlutinn skili séráliti í málinu. „Ég get ekki séð betur en að það sé mun ítarlegra og nákvæmara en álit meirihlutans. Sem er náttúrlega óneitanlega sérstakt," segir Tryggvi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×