Handbolti

Sigurður: Okkur var sagt að tapa leik númer tvö

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Eggertsson.
Sigurður Eggertsson. Mynd/Daníel

Sigurður Eggertsson er oftar en ekki kallaður Gleðigjafinn. Hann gladdi heldur betur stuðningsmenn Vals í kvöld með frábærum leik og mögnuðum mörkum.

„Það var sagt við okkur að tapa leik númer tvö því þá þyrftum við aftur að spila hérna. Það vantar nefnilega krónur í kassann," sagði Sigurður af sínum einstaka léttleika.

„Ég veit eiginlega ekkert hvað ég á að segja. Ég er bara orðlaus," sagði Sigurður sem gat samt sagt nokkur orð um eigin frammistöðu.

„Ég er búinn að vera drullulélegur í síðustu leikjum enda að spila horn. Það er ekki mönnum bjóðandi að vera hornamaður. Ég hef ekkert æft vegna meiðsla og ég var mjög hungraður í kvöld. Stundum er maður í stuði og ég var bara í stuði í kvöld," sagði Sigurður sem óttaðist aldrei útkomu leiksins.

„Það vissu allir að við myndum vinna og HK líka. Það kemur enginn hingað og vinnur," sagði Sigurður en það dugar Valsmönnum ekki að vinna bara heimaleikina gegn Haukum til þess að verða meistarar. Þeir þurfa að stela leik í Firðinum.

„Það er meira vesenið að þurfa að vinna útileik. Við gerum það nú samt. Vorum Íslandsmeistarar fyrir tveim árum á Ásvöllum en það væri samt skemmtilegra að gera það á heimavelli núna. Ég ætla því að spá okkur 3-1 sigri í rimmunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×