Viðskipti innlent

Leitað í sumarhúsi Ólafs Ólafssonar

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Húsleit var gerð í sumarhúsi Ólafs Ólafssonar í Miðhrauni á Snæfellsnesi í tengslum við rannsókn á kaupum Al Thani á hlut í Kaupþingi. Þá var einnig gerð húsleit á heimili Ólafs og tveimur fyrirtækjum í hans eigu.

Tólf húsleitir fóru fram á vegum sérstaks sakskóknara í vikunni í tengslum við rannsókn embættisins á kaupum félagsins Q Iceland Finance, félags í eigu Sjeiksins Al Thani, á 5 % hlut í Kaupþingi um tveimur vikum fyrir hrun bankans. Húsleitir fóru fram á heimilum fyrrverandi stjórnenda Kaupþings og fyrirtækjum tengdum þeim. Svo virðist sem að sérstök áhersla hafi verið lögð á að afla gagna hjá Ólafi Ólafssyni, sem var um tíma annar stærsti eigandi Kaupþings, hafði milligöngu um viðskiptin og þekkir Sjeikinn persónulega.

Leitað var á heimili Ólafs, skrifstofum Kjalars, sem er eignarhaldsfélag í eigu hans og Samskipum þar sem rannsakendur töldu að hann væri með skrifstofu. Svo reyndist ekki vera og gripu rannsakendur í tómt. Þá var einnig leitað í sumarhúsi hans á Miðhrauni á Snæfellsnesi síðdegis á föstudag. Fjórir lögreglumenn söfnuðu gögnum í sumarhúsinu en viðstaddir voru aðstoðarmaður Ólafs og lögfræðingurinn Ragnar Hall. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Ólafur ekki verið yfirheyrður en hann er staddur erlendis.

Þegar fjölmiðlar fjölluðu um kaupin á gagnrýnan hátt um síðustu áramót bárust yfirlýsingar frá Sigurði Einarssyni, fyrrum stjórnarformanni Kaupþings, og Ólafi. Sigurður sagði í yfirlýsingu sinni að viðskiptin hafi verið eðlileg og bankanum sérstakt fagnaðarefni. Sjeikinn hafi verið persónulega ábyrgur fyrir kaupunum.

Í yfirlýsingu Ólafs kom fram að engar þóknanir, greiðslur eða hagnaður hafi fallið í hans hlut við kaupin. Þá óskaði hann einnig eftir því að skýrsla sem Price Waterhouse Coopers vann um starfsemi Kaupþings yrði birt. Það var nákvæmlega sú skýrsla sem var höfð til grundvallar á skoðun Fjármálaeftirlitsins á málinu sem endaði með kæru til sérstaks saksóknara.

Athygli vekur að hvorki Ólafur né Sigurður vilja tjá sig um málið núna og engar yfirlýsingar hafa borist. Ekki náðist í Sigurð í dag en Ólafur neitaði fréttastofu viðtali.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×