Fótbolti

Samuel Eto'o hefur ekki áhyggjur af sjálfum sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o framherji Barcelona og þjálfarinn Pep Guardiola.
Samuel Eto'o framherji Barcelona og þjálfarinn Pep Guardiola. Mynd/AFP

Samuel Eto'o hefur ekki skorað mörg mörk í undanförnum leikjum Barcelona en hefur samt ekki neinar áhyggjur fyrir leikinn á móti Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn.

„Ef við ætlum að vinna leikinn þá verðum við að skora mörk. Ég mun skila minni vanalegu vinnu inn á vellinum, hlaupa mikið og pressa varnarmennina og það er sú vinna sem félagar mínar í liðinu kunna að meta," sagði Samuel Eto'o.

„Ég hugsa ekki bara um að skora mörk. Ég átti alveg möguleika á að skora tólf mörk í síðasta mánuði en hlutirnir féllu ekki með mér," sagði Samuel Eto'o sem missti gullskóinn til Diego Forlan á lokasprettinum.

„Þetta er búið að vera draumatímabil. Ég barðist um gullskóinn allt til enda og það eina sem ég get gert núna er að óska Forlan til hamingju," sagði Eto'o og bætti við:

„Ef einhver hefði komið til mín fyrir tímabilið og boðið mér það að ég myndi skora 29 mörk, Victor Valdes fengi markmannsverðlaunin og við myndum vinna tvöfalt, þá hefði ég tekið því," sagði Samuel Eto'o.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×