Viðskipti innlent

Forstjórinn ekki uggandi

Hermann Guðmundsson forstjóri N1 segir fyrirtækið eiga fé á reikningi og hafi greitt niður skuldir fyrir gjalddaga.
Hermann Guðmundsson forstjóri N1 segir fyrirtækið eiga fé á reikningi og hafi greitt niður skuldir fyrir gjalddaga.

Framkvæmdastjórar og aðrir yfirmenn N1 hafa síðustu daga innleyst afkomutengd laun sem þeir eiga hjá félaginu vegna afkomu fyrirtækisins á síðasta ári. Upphæðirnar nema tugum milljóna króna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Eftir því sem næst verður komist telja stjórnendur fyrirtækisins ekki útilokað að það lendi í vanda vegna skulda og taki lánardrottnar það yfir. Gerist slíkt fá þeir ekkert fyrir sinn snúð.

N1 hagnaðist um 474 milljónir króna á fyrri hluta þessa árs saman borið við 98 milljónir á sama tíma í fyrra. Veltan jókst um 12,5 prósent á milli ára og nam 17,2 milljörðum króna í ár.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, vildi ekki tjá sig um launakjör starfsmanna í gær.

Langtímaskuldir N1 nema 8,5 milljörðum króna og eru á gjalddaga á næstu tveimur árum, samkvæmt síðasta árshlutareikningi félagsins. Tveir milljarðar króna voru á gjalddaga eftir um tvo mánuði og nokkuð liðið frá því fjórðungur skuldarinnar var greiddur niður. Frá miðju næsta ári og fram á mitt ár 2011 eru rúmir 6,6 milljarðar á gjalddaga. Hermann bendir á að lítil ástæða sé til að óttast um framtíð N1. Félagið hafi greitt niður skuldir og eigi 2,5 milljarða á bankareikningi fyrir næstu gjalddaga. „Við erum ekki í neinum vandræðum," segir hann. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×