Dow Jones-hlutabréfavísitalan rauf átta þúsund stiga múrinn á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í gær. Hún hefur legið undir honum síðan í byrjun febrúar. Lægst fór vísitalan í 6.547 stig fyrir tæpum mánuði. Hækkunin síðan þá nemur rúmum 22 prósentum.
Talsverð uppsveifla var á bandarískum hlutabréfamarkaði í gær eftir að bandaríska reikningsskilaráðið aflétti þeim kvöðum á fyrirtæki að færa eignir á markaðsvirði. Helstu hlutabréfavísitölur ruku nær samstundis upp um rúm þrjú prósent í byrjun dags. Horft er til þess að breytingin geti dregið úr tapi fjármálafyrirtækja vegna falls á hlutabréfamörkuðum. - jab