Erlent

Hnífaæði meðal breskra unglinga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Sífellt fleiri breskir unglingar ganga nú um vopnaðir hnífum og hafa þarlend yfirvöld látið í ljós áhyggjur af þróuninni.

Bresku unglingarnir eru komnir í nokkurs konar vígbúnaðarkapphlaup ef svo mætti segja og hefur ofbeldisverkum, þar sem hnífum er beitt, fjölgað mjög undanfarna mánuði. Félagsmálayfirvöld segja það áberandi að hnífanotkun og hnífaburður hafi einkum aukist í hverfum þar sem lágstéttarfólk er búsett og fólk sem stendur höllum fæti fjárhagslega og félagslega.

Nú er svo komið að morðmálum, þar sem hnífar koma við sögu, hefur fjölgað um 26 prósent milli áranna 2005 og 2007 og frá sjúkrahúsunum streyma upplýsingar um að fólki með áverka eftir hnífaárásir hafi fjölgað þar ört undanfarið. Oft tengist ofbeldið mest unglingagengjum sem heyja blóðug átök sín á milli um yfirráðasvæði í hverfunum en börn allt niður í sjö ára gömul hafa verið gripin með hnífa á sér og segja yfirvöld þá þróun vera sérstakt áhyggjuefni.

Þá hefur það verið reiknað út að sá kostnaður, sem bresk yfirvöld beri vegna hvers kyns ofbeldis þar sem hnífum er beitt, sé rúmlega 1,2 milljarðar punda á ári sem jafngildir um 240 milljörðum króna. Flest börn sem byrja að ganga með hníf á sér eru 11 ára gömul og tengist sá aldur yfirleitt flutningi frá barnaskóla yfir í gagnfræðaskóla og þeim félagslegu breytingum sem hann hefur í för með sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×