Golf

Fáklæddur Svíi stal senunni af Tiger

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stenson skartaði aðeins nærbuxum frá landa sínum, Björn Borg.
Stenson skartaði aðeins nærbuxum frá landa sínum, Björn Borg. Nordic Photos/AFP

Svíinn Henrik Stenson stal senunni á WGC-CA mótinu í dag þegar hann klæddi sig úr öllu nema nærbuxunum á þriðju holu vallarins.

Upphafshögg Stensons lenti í drullu við vatn. Svíin taldi sig eiga möguleika á að slá boltann þannig að hann reif sig úr fötunum og lét vaða.

„Þar sem það var svo mikil drulla gat ég ekki farið þarna í fötunum. Þau hefðu orðið drulluskítug þannig að það var um ekkert annað að velja en rífa sig úr," sagði Stenson léttur en hann spilaði vel og kom í hús á 69 höggum.

„Ég var aðeins í tvennu þegar ég sló - nærbuxunum og golfhanskanum. Það er það eina sem sést á myndum ásamt kylfunni. Ég var bara eins og Guð skapaði mig," sagði Stenson sem býst við að verða strítt þegar hann spilar aftur á morgun.

„Það verða klárlega einhverjar háðsglósur, ég er alveg viss um það. Þetta atvik mun líklega fara með mér í gröfina. Ég vona að ég hafi ekki hrætt marga áhorfendur af vellinum," sagði Svíinn og hló.

„Kannski fæ ég einhverja auglýsingasamninga út á þetta. Hver veit nema Playgirl hringi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×