Skoðun

Framtíðin byggist á lýðræði

Katrín Jakobsdóttir skrifar um lýðræði

Nú þegar Íslendingar standa á tímamótum er mikilvægt að efla lýðræði á sem flestum sviðum. Það verður meðal annars gert með því að stuðla að því að ungt fólk og börn taki þátt í að móta framtíðina með markvissari hætti en áður og þátttaka þeirra í lýðræðislegri umræðu verði styrkt sérstaklega. Raddir ungs fólks og barna verða að fá að hljóma hátt og skýrt.

Menntakerfið leikur grundvallarhlutverk í því að byggja upp sterkt og hugsandi ungt fólk sem lætur sig framtíð sína og umhverfi varða. Í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að menntun skuli „beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa og að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar.“

Það hefur glatt mig mjög hversu mikill áhugi er á mannréttindafræðslu sem er nátengd hugmyndum um aukið lýðræði í skólastarfi og lýðræðisvitund. Fyrir stuttu var ég stödd á fjölmennum fundi þar sem kynnt var handbókin Kompás sem er hluti af áætlun Evrópuráðsins um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk. Við sama tækifæri skrifaði ég undir viljayfirlýsingu um samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Háskólann á Akureyri, Akureyrarbæ, Rauða kross Íslands og Ungmennafélag Íslands um að efla lýðræði og mannréttindi í skólum og í félags- og æskulýðsstarfi.

Ég vona að sem flestir kynni sér Kompás en meðal annars er hægt að nálgast handbókina á vef ráðuneytisins, www.menntamalaraduneyti.is. Það er von mín að það tilraunaverkefni sem nú verður ráðist í norðan heiða eigi eftir að efla lýðræðis- og mannréttindafræðslu um land allt.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×