Fótbolti

Björgólfur til reynslu hjá félagi í Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Takefusa í leik með KR.
Björgólfur Takefusa í leik með KR. Mynd/Stefán

Björgólfur Takefusa er nú staddur í Austurríki þar sem hann er til reynslu hjá B-deildarfélaginu Austria Lustenau.

Þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, í samtali við Vísi í dag.

Rúnar sagði að hugmyndin hefði verið sú að Björgólfur yrði lánaður til félagsins og myndi svo snúa aftur til Íslands með vorinu.

„En þetta er á algjöru byrjunarstigi. Við höfum ekkert heyrt frá félaginu og það eina sem hefur gerst er að við gáfum Björgólfi leyfi til að fara út og æfa með félaginu," sagði Rúnar.

Lustenau er í þriðja sæti austurrísku B-deildarinnar sem stendur en eftir næstu umferð fer deildin í vetrarfrí og byrjar ekki aftur fyrr en í febrúar. Tímabilinu lýkur svo um miðjan maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×