Fótbolti

Danir eru að safna fyrir bulluna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danska bullan sést hér ráðast að dómara leiksins.
Danska bullan sést hér ráðast að dómara leiksins. Mynd/AFP
Þúsundir Dana hafa nú tekið sig saman og hafið söfnun á Fésabók fyrir áhorfandann sem reyndi að ráðast á dómara landsleiks Dana og Svía í undankeppni EM fyrir tveimur árum. Bullan var dæmdur á dögunum til þess að greiða danska knattspyrnusambandinu rúmar 22 milljónir í skaðabætur.

Hinum 31 árs gamli Dani var svo mismunað, þegar þýski dómarinn Herbert Fandel dæmdi víti á Christian Poulsen og gaf honum rautt spjald, að hann hljóp inn á völlinn og ætlaði að ráðast á dómarann. Dönskum leikmönnum tókst þó að koma í veg fyrir honum tækist það en það kom þó ekki í veg fyrir að þýski dómarinn flautaði leikinn af. Svíum var síðan dæmdur 3-0 sigur.

UEFA refsaði auk þess Dönum með því að láta þá spila næstu tvo heimaleiki í Árósum sem tekur helmingi færri áhorfendur en Parken í Kaupmannahöfn. Danska knattspyrnusambandið kærði í kjölfarið bulluna sína og heimtaði skaðabætur. Danska sambandið vann málið og bullan þurfti að borga þeim 900 þúsund danskar krónur eða 22,3 milljónir íslenskra króna.

Nú hafa 1000 Danir tekið sig saman, stofnað Fésabók-hóp og eru að safna fyrir sektinni. Vonir standa til að hópurinn innihaldi að lokum 20 þúsund manns og er reiknað með að hver og einn greiði 45 danskar krónur eða rúmlega 1100 krónur íslenskar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×