Innlent

Fyrningu ráðherrabrota seinkað

Ábyrg? Hægt verður að sækja til saka ráðherra sem sátu frá desember 2006 til saka fyrir möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð. fréttablaðið/antin
Ábyrg? Hægt verður að sækja til saka ráðherra sem sátu frá desember 2006 til saka fyrir möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð. fréttablaðið/antin

Möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð fyrnast á fjórum árum en ekki þremur, nái breytingar allsherjarnefndar Alþingis á frumvarpi til breytinga á lögum um rannsókn á falli bankanna og tengdum atburðum fram að ganga.

Nefndin afgreiddi breytingartillögu þar um á fundi í gærmorgun.

Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð frá 1963 getur málshöfðun út af embættisbroti ráðherra ekki átt sér stað ef þrjú ár eru liðin frá því að brot var framið. Í lögunum er þó kveðið á um að skipun rannsóknarnefndar þingmanna, á grundvelli stjórnarskrárinnar, til að athuga störf ráðherra geti rofið fyrningu. Geti Alþingi þá samþykkt málshöfðun innan árs frá kosningu nefndarinnar.

Rannsóknarnefnd Alþingis nýtur ekki slíkrar stjórnarskrárbundinnar stöðu og áhöld voru uppi um hvort níu manna þingmannanefnd sem fjalla á um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefði slíka stöðu samkvæmt frumvarpinu.

Með breytingu þess er þingmannanefndinni veitt slík stjórnarskrárbundin staða og þar með tryggt að hægt verði að sækja ráðherra til ábyrgðar fyrir möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð sem framin voru frá desember 2006. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×