Innlent

Ómar og Margrét funduðu með Samfylkingunni um bandalag

Íslandshreyfingin kynnt til leiks á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í mars 2007. Jakob Frímann Magnússon, Margrét Sverrisdóttir, Ómar Ragnarsson og Ósk Vilhjálmsdóttir.
Íslandshreyfingin kynnt til leiks á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í mars 2007. Jakob Frímann Magnússon, Margrét Sverrisdóttir, Ómar Ragnarsson og Ósk Vilhjálmsdóttir.

Forystumenn Íslandshreyfingarinnar funduðu í gær með framkvæmdastjóra og gjaldkera Samfylkingarinnar um hugsanlegt samstarf. ,,Fimm prósent þröskuldurinn hefur gríðarleg áhrif á landslag minni flokkanna og við höfum verið að kanna hvort það sé flötur að við verðum í kosningabandalagi við eitthvað að öðrum framboðum," segir Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar.

Undanfarnar vikur hefur Ómar fundað með fulltrúum annarra stjórnmálaflokka um hugsanlegt samstarf við Íslandshreyfinguna. Í gær funduðu Ómar og Margrét Sverrisdóttir, varaformaður hreyfingarinnar, með Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar og Magnúsi Norðdahl, gjaldkera flokksins, í húsnæði Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg. Ómar segir að fundurinn hafi verið góður.

Ómar hefur einnig rætt við þingmenn úr röðum Vinstri grænna auk forystu Borgarahreyfingarinnar sem eru nýstofnuð grasrótarsamtök.

Aðspurður með hvaða hætti hugsanlegt samstarf Íslandhreyfingarinnar við aðra flokka yrði segir Ómar: ,,Það er allskonar form sem kemur til greina sem við erum enn að bræða með okkur en þetta fer hinsvegar að skýrast." Hann telur líklegt að niðurstaða fáist í málið um helgina þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist innan skamms.

Íslandshreyfingin hlaut rúmlega 6000 atkvæði í kosningunum vorið 2007 eða 3,3% atkvæða. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur naut hreyfingin stuðnings rúmlega 5% kjósenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×