Innlent

Íslendingar eiga Norðurlandamet í sykurneyslu

Íslendingar neyta allra Norðurlandaþjóða mest af sykri á ári. Drykkja á sykruðum gosdrykkjum vegur þyngst, tæp fjörutíu prósent af allri sykurneyslunni. Íslendingar innbyrða að meðaltali 48,3 kíló af sykri á mann, en Svíar 41,8 kíló, Danir 37,6 kíló, Finnar 33,3 og Norðmenn 32,9 kíló. Þessar tölur eru miðaðar við árið 2007 nema hjá Svíum, sú tala er frá 2006.

Viðbættur sykur er í mörgum matvörum, til dæmis mjólkurvörum, jógúrt, sælgæti, gosdrykkjum, kökum, kexi og morgunkorni. Myndin hér til hliðar sýnir að 25 sykurmolar eru í hálfs lítra kók, 11,5 molar í Tomma og Jenna drykk, tólf í skyrdrykk og sex sykurmolar eru í skál af Cocoa Puffs. Enginn viðbættur sykur er til dæmis í hreinni léttmjólk, Trópí eða Flórídana.

Sykurskattur hefur verið um langt skeið hér á landi. Virðisaukaskattur var þó lækkaður úr 24,5 prósentum í sjö prósent á sælgæti, súkkulaði, gosi, kolsýrðu vatni, ávaxtasöfum og kexi fyrsta mars 2007 og vörugjöld felld niður á þessum vörum, þó að sykur og sætindi héldu áfram að bera sjö prósenta vörugjöld.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hagfræðingur segir að verðnæmi sykurs sé töluverð fyrir ákveðna hópa. Sykurskattur hafi mest áhrif á þá sem ríkið vilji oft reyna að ná til en áhrifin komi ekki mikið fram í meðaltali yfir alla landsmenn.

„Áhrifin eru mest á stórneytendur og langmest á unglinga og ungt fólk. Suma hópa er töluvert auðvelt að nálgast með fræðslu en aðrir hópar verða alltaf útundan. Fræðsla nær til dæmis síður til unglinga og fólks með lága félagslega og efnahagslega stöðu. Þetta fólk er með minni peninga milli handanna og borðar ekki jafn hollan mat."

Tinna Laufey bendir á að 24,5 prósenta skattur sé í landinu almennt en gosdrykkir séu undanþegnir töluvert miklum skatti því að á þeim sé aðeins sjö prósenta vörugjald. „Ég sé enga kosti við það að niðurgreiða skatt á gosdrykkjum umfram aðra vöru í landinu," segir hún.

Í Noregi er tæplega þriggja norskra króna skattur á hvern lítra af alkóhóllausum gosdrykkjum. Í Danmörku er 0,91 danskur eyrir í skatt á lítra af gosi. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að ekkert hafi verið ákveðið um hvort sérstakur sykur- eða gosskattur verði lagður á.ghs@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×