Formúla 1

Enn einn sigurinn hjá Button

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Button í Barcelona í dag.
Button í Barcelona í dag. Nordic Photos / Getty Images

Bretinn Jenson Button vann sinn fjórða sigur í Formúlu 1 kappakstrinum á tímabilinu í dag er hann bar sigur úr býrum í spænska kappakstrinum í Barcelona.

Button var fremstur á ráspól, Sebastian Vettel á Red Bull annar og félagi Button hjá Brawn GP, Rubens Barrichello, þriðji.

Barrichello náði þó að komast fram úr Button þökk sé góðri byrjun. Hins vegar reyndist keppnisáætlun Button betri og náði hann að endurheimta fyrsta sætið.

Mark Webber náði þriðja sætinu í dag og Vettel, félagi hans hjá Red Bull, varð fjórði.

Heimsmeistarinn Lewis Hamilton á McLaren varð í níunda sæti og vann sér inn engin stig í dag.

Yfirburðir Button og Brawn GP voru miklir í dag. Button náði ellefu sekúndna forystu á næstu menn um miðbik keppninnar og er nú með fjórtán stiga forystu á Barrichello í stigakeppni ökuþóra.

Þegar að öryggisbíllinn var kallaður út á brautina eftir árekstur í fyrsta hringnum var ákveðið að láta Button stoppa tvisvar á viðgerðarsvæðinu en ekki þrisvar eins og áætlað var. Það reyndist gera gæfumuninn fyrir Bretann sem ók mjög vel í keppninni.

Úrslitin í dag:

1. Button, Brawn GP

2. Barrichello, Brawn GP

3. Webber, Red Bull

4. Vettel, Red Bull

5. Alonso, Renault

6. Massa, Ferrari

7. Heidfeld, BMW

8. Rosberg, Williams






Fleiri fréttir

Sjá meira


×