Enski boltinn

Upson: Er ekki að hugsa um að yfirgefa West Ham

Ómar Þorgeirsson skrifar
Matthew Upson.
Matthew Upson. Nordic photos/AFP

Varnarmaðurinn og fyrirliðinn Matthew Upson hjá West Ham kveðst ekki vera að bíða eftir tækifæri á að yfirgefa herbúðir félagsins til þess að ganga til liðs við stærra og sigursælla félag.

West Ham hefur farið afleitlega af stað í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi keppnistímabili og hefur aðeins unnið tvo leiki af fyrstu tólf leikjum sínum í deildinni.

Upson viðurkennir að það væri ef til vill auðveldlegra fyrir sig að heilla landsliðsþjálfarann Fabio Capello hjá Englandi ef hann væri að spila í liði sem ynni fleiri leiki og væri í toppbaráttu deildarinnar.

Hann kveðst þó ekki ætla að flýja sökkvandi skip þrátt fyrir að hann hafi sterklega verið orðaður við félög á borð við Arsenal, Liverpool og Tottenham.

„Ég er ekki að hugsa um að yfirgefa West Ham. Þetta er mitt félag og ég hef verk að vinna þar og ég held að það ætti ekki að þurfa að hafa neikvæð áhrif á möguleika mína hjá enska landsliðinu.

Það væri kannski auðveldara að vera í sigursælla liði en ég held að ég hafi ekki gert mikið af mistökum í leikjum með West Ham til þessa og ég verð að reyna að gera allt mitt til þess að hjálpa við að rétta gengi félagsins við," segir Upson í viðtali við Sky Sports fréttastofuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×