KR vann í dag tólf stiga sigur á Íslandsmeisturum Hauka í Iceland Express deild kvenna, 67-55.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og staðan jöfn að honum loknum, 25-25. KR tók svo völdin í leiknum í síðari hálfleik og tryggði sér þar með sinn annan sigur í röð í deildinni.
Signý Hermannsdóttir skoraði 23 stig fyrir KR en stigahæst hjá Haukum var Heather Ezell með 31 stig. Signý tók tólf fráköst og Ezell tíu.
Einn leikur er á dagskrá deildarinnar í kvöld. Þá tekur Keflavík á móti Grindavík en leikurinn hefst klukkan 19.15.
Á sama tíma hefjast þrír leikir í Iceland Express deild karla. Njarðvík tekur á móti Tindastóli, KR mætir ÍR og Hamar liði FSu.