Innlent

Niðurskurðurinn bitnar á frístundaheimilum

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, situr í stjórn ÍTR.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, situr í stjórn ÍTR. Mynd/Valgarður Gíslason
Vinstri grænir í Reykjavík gera alvarlegar athugsemdir við fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs fyrir árið 2010. Ljóst sé að niðurskurður á sviðinu komi til með að bitna að einna verst á frístundaheimilum. Vinstri grænir vilji hækka útsvarsprósentuna.

„Fyrir utan forsendurnar sem gagnrýndar hafa verið í bókunum Vinstri grænna í öllum fagráðum, þ.m.t. að ekki sé gert ráð fyrir fullnýttri útsvarsprósentu, er ljóst að niðurskurður á sviðinu kemur til með að bitna að stórum hluta á æskulýðsstarfi borgarinnar," segir í bókun Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa, í stjórn Íþrótta- og tómstundaráðs.

Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa, segir í bókuninni. „Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 miljónir króna í tekjur árið 2010. Niðurskurðurinn er því enn meiri en nauðsyn krefur að mati Vinstri grænna."

Í bókun Sóleyjar segir að allt of mikið sé skorið niður á skrifstofu tómstundamála. „Sérstaklega er sárt að sjá hve hart er gengið að frístundaheimilum borgarinnar, en þau eru látin taka á sig um fjórðung alls niðurskurðar á sviðinu. Niðurskurður á kostnað barna eða velferðar mun hafa áhrif á líðan þeirra og uppvaxtarskilyrði og þar að auki reynast kostnaðarsamur til framtíðar og er með öllu óásættanlegur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×