Innlent

Ljósabekkir verði bannaðir innan átján

Geislavarnastofnanir á Norðurlöndunum vilja að sett verði 18 ára aldurstakmark á notkun ljósabekkja. Þetta kemur fram á heimasíðu Geislavarna ríkisins. Þar segir að Norrænar geislavarnastofnanir hafi ráðlagt árið 2005, fólki undir 18 ára aldri og fólki með ljósa húð að nota ekki ljósabekki. Í nýrri sameiginlegri yfirlýsingu fjögurra geislavarnastofnana Finnlands, Svíþjóðar, Íslands og Noregs hafi hinsvegar verið gengið skrefi lengra og er nú lagt til að 18 ára aldursmark verði sett á notkun ljósabekkja.

„Útfjólublá geislun eykur marktækt líkur á húðkrabbameinum. Börn og ungmenni eru viðkvæmari en aðrir fyrir henni. Þeir sem sólbrenna ungir eiga frekar á hættu að fá illkynja sortuæxli síðar á ævinni. Illkynja sortuæxli eru talin alvarlegasta gerð húðkrabbameina," segir á heimasíðu GR.

Þá segir að samkvæmt alþjóðlega viðurkenndri meginreglu í geislavörnum skuli sérhver notkun geislunar vera réttlætanleg, þannig að gagn vegi þyngra en skaði. „Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum (IARC) sem starfar á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, WHO, hefur nýlega flokkað geislun frá ljósabekkjum sem „krabbameinsvaldandi fyrir fólk". Þetta vekur upp áleitnar spurningar um hvort réttlæta megi notkun ljósabekkja til að fá brúnan húðlit."

Þess vegna mæla stofnanirnar með að settar verði reglur um ljósabekki á sólbaðstofum opnum almenningi sem banna notkun, sölu eða leigu þeirra til barna eða unglinga undir 18 ára aldri. Einnig er bent á að löggjöf um þetta hafi þegar verið innleidd í ýmsum Evrópulöndum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×