Fótbolti

Nene leikmaður ágústmánaðar í frönsku 1. deildinni

Arnar Björnsson skrifar
Nene í leik með Monakó.
Nene í leik með Monakó. Nordic photos/AFP

Brasilíumaðurinn Nene sem skoraði seinna mark Monakó um helgina í 2-0 sigrinum á Paris St. Germain hefur ekki alltaf baðað sig í sviðsljósinu. Þessi örvfætti leikmaður lék með Palmeiras og Santos í Brasilíu áður en hann freistaði gæfunnar á Spáni.

Hann skoraði 2 mörk í 29 leikjum með Mallorca en eftir eina leiktíð fór hann til Alaves. Þar stóð hann sig vel, skoraði 21 mark í 79 leikjum. Þegar Alaves féll úr 1. deild lá leiðin til Celta Vigo.

Þar gekk hvorki né rak og Celta féll úr deildinni. Monakó Þurfti ekki að borga hjá fjárhæð fyrir Brasilíumanninn og Nene stóð sig mjög vel með franska liðinu, skoraði 5 mörk í 28 leikjum og átti sinn þátt í að Monakó hélt sæti sínu í deildinni. Fyrrverandi þjálfari Monakó, Brasilíumaðurinn Ricardo Gomez, hafði ekki mikla trú á Nene og samþykkti að hann færi til Espanol á Spáni sem lánsmaður í eitt ár.

Espanol átti kauprétt á Brassanum en félagið ákvað að nýta hann ekki. Nene lék þó 34 leiki á síðustu leiktíð og skoraði 4 mörk. Nene eða Anderson Luis de Carvalho, eins og hann heitir fullu nafni, er sem nýr maður eftir að hafa snúið aftur úr láninu á Spáni.

Hann er búinn að skora 3 mörk í 5 fyrstu leikjunum með Monakó og var valinn besti leikmaður ágústmánaðar í frönsku 1. deildinni. Nene er alsæll með lífið og tilveruna hjá Monakó undir stjórn nýja þjálfarans, Guy Lacombe.

Sjálfur segir Nene í viðtali að hann iði í skinninu eftir því að spila og ekki spillir það gleðinni að Monaco hefur keypt tvo sterka leikmenn; Mathieu Coutadeur og Eið Smára Gudjohnsen. Svo er að sjá hvort Nene eigi eftir að blómstra enn meira á þessari leiktíð við hliðina á ljóshærða íslenska víkingnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×