Fótbolti

Keane: Erum þakklátir fyrir yfirlýsinguna frá Henry

Ómar Þorgeirsson skrifar
Robbie Keane.
Robbie Keane. Nordic photos/AFP

Robbie Keane, fyrirliði írska landsliðsins, hefur ekki gefið upp alla von um að síðari umspilsleikur Írlands og Frakklands verði spilaður að nýju þrátt fyrir að alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hafi þvertekið fyrir það.

Keane er ánægður með nýlega yfirlýsingu Thierry Henry, fyrirliða franska landsliðsins, þar sem hann taldi réttast að leikurinn yrði spilaður aftur.

Fjaðrafokið er einmitt í kringum Henry sjálfan þegar hann handlék boltann í framlengingu áður en hann gaf stoðsendinguna að sigurmarki Frakka í leiknum og Keane segir að það þurfi alvöru mann til þess að stiga fram og gefa frá sér slíka yfirlýsingu líkt og Henry gerði.

„Fyrir hönd leikmanna írska landsliðsins vill ég þakka Thierry Henry fyrir yfirlýsinguna sem hann gaf frá sér þar sem hann lýsti því yfir að honum þætti sanngjarnast að leikurinn yrði spilaður aftur.

Að gefa út slíka yfirlýsingu sem fyrirliði franska landsliðsins þurfti bæði dug og þor og við berum mikla virðingu fyrir því.

Ég sem fyrirliði írska landsliðsins tek undir með Henry og vona að franska knattspyrnusambandið taki til greina óskir fyrirliða landsliðanna tveggja og fari fram á að leikurinn verði spilaður aftur við FIFA," segir í yfirlýsingu frá Keane á opinberri heimasíðu írska knattspyrnusambandsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×