Lífið

Bubbi Morthens í Eurovision

Óskar Páll og Eurovision-aðdáandinn Bubbi Morthens semja saman Eurovisionlag í keppnina á næsta ári.
Óskar Páll og Eurovision-aðdáandinn Bubbi Morthens semja saman Eurovisionlag í keppnina á næsta ári.

„Við ákváðum þetta í fyrradag: Ég og Bubbi Morthens ætlum að semja saman lag og texta í Eurovision-forkeppnina,“ segir Óskar Páll Sveinsson, höfundur „Is It True“ sem Jóhanna Guðrún söng í annað sæti Eurovision í maí. Óskari var einum boðið að semja lag og fer það sjálfkrafa í forkeppnina með fjórtán lögum sem nú hafa verið valin úr 150 innsendum lögum.

„Við erum ekkert farnir að spá mikið í þetta. Ætlum bara að velja flytjanda fyrst og semja svo lag og texta með hann í huga. Bubbi ætlar ekki að syngja þetta sjálfur, hann er alveg ákveðinn í því.“

Bubbi hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir Eurovision-aðdáun sína. Þvert á móti: Hann hefur verið algjörlega á móti keppninni og fullyrti meðal annars í einum forvalsþættinum 2007 að hann myndi aldrei taka þátt í keppninni. Óskar Páll segir að gamli hafi snúist í vor.

„Hann hringdi í mig daglega til að fá fréttir og sýna stuðning. Svo hélt hann Eurovision-partí þegar við lentum í öðru sæti í Rússlandi og gerðist einlægur aðdáandi keppninnar í kjölfarið.“

Lögin fjórtán sem etja kappi við lag Bubba og Óskars Páls eru eftir Albert Guðmann Jónsson, Birgi Jóhann Birgisson, Bryndísi Sunnu Valdimarsdóttur og Daða Georgsson, Grétar Sigurbergsson, Halldór Guðjónsson, Harald G. Ásmundsson, Harald V. Sveinbjörnsson, Heru Björk Þórhallsdóttur og Örlyg Smára, Jóhannes Kára Kristinsson, Matthías Stefánsson, Rögnvald Rögnvaldsson, Sigurjón Brink og Steinarr Loga Nesheim.

Forkeppnin hefst 9. janúar og það kemur í ljós 6. febrúar hvaða lag keppir fyrir Íslands hönd í Noregi í maí á næsta ári.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.