Viðskipti innlent

Skýrr, Eskill, LS og Kögun sameinast í eitt fyrirtæki

Eskill, Kögun, Landsteinar Strengur (LS), Kögun og Skýrr hafa verið sameinuð í eitt fyrirtæki, sem mun starfa undir nafni þess síðastnefnda. Gestur G. Gestsson hefur verið ráðinn forstjóri sameinaðs fyrirtækis.

Í tilkynningu segir að sameining fyrirtækjanna undir nafni Skýrr var tilkynnt starfsfólki á hádegisfundi nú í dag, miðvikudaginn 18. nóvember, og tekur gildi nú þegar. Starfsfólk sameinaðs fyrirtækis er um 320 talsins og áætlaðar tekjur 2009 eru tæplega 5 milljarðar króna.

„Ákvörðunin um sameininguna er tekin að vel athuguðu máli. Slagkrafturinn er ótvíræður. Nú stefnum við saman besta fagfólki landsins í upplýsingatækni á einn vinnustað, snúum vörn í sókn og smíðum eitt öflugasta fyrirtæki landsins," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.

Að sögn Gest státar sameinað fyrirtæki Eskils, Kögunar, Landsteina Strengs og Skýrr af einstökum mannauði sem þjónustar um 3 þúsund viðskiptavini. Rekstur fyrirtækjanna hefur verið góður þrátt fyrir erfitt árferði.

„Við sameininguna verða hagsmunir viðskiptavina í hvívetna hafðir að leiðarljósi. Hið nýja sameinaða fyrirtæki hvílir á sterkum stoðum gömlu fyrirtækjanna, sem öll hafa náð góðum árangri og áunnið sér eftirsóknarvert orðspor úti í atvinnulífinu. Sameiningin hefur hvorki áhrif á núverandi samninga né þjónustu við viðskiptavini. Þvert á móti mun lausnaúrval og þjónustuþættir Skýrr breikka og dýpka við sameininguna," segir Gestur að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×