Innlent

Vopnfirðingar sjá fram á hátíð eftir 2 ár

Vopnfirðingar telja sig ljónheppna að nýr vegur til héraðsins skyldi hafa sloppið í útboð rétt fyrir hrun. Fyrir vikið sjá þeir fram á hátíðarhöld eftir tvö ár.

Sjöhundruð íbúar Vopnafjarðar eru farnir að hlakka til þeirra tímamóta þegar þeir loks tengjast öðrum landshlutum með nútímavegi. Segja má að endurbæturnar hafi hafist fyrir alvöru þegar nýja Háreksstaðaleiðin var lögð yfir Möðrudalsfjallgarð fyrir tæpum áratug en við það styttist leiðin milli Vopnafjarðar og Egilsstaða um fjörutíu kílómetra. Nýlega lauk Suðurverk við lagningu ellefu kílómetra kafla á heiðinni ofan Vopnafjarðar en þaðan er nú vinnuflokkur frá vestfirska verktakanum KNH að klára veginn alla leið í þorpið, alls 37 kílómetra til viðbótar.

Oddviti Vopnafjarðarhrepps, Aðalbjörn Björnsson, segir að eftir áratugabið sé ótrúlegt að þetta skuli vera að gerast núna á krepputímum. Vopnfirðingar hafi verið heppnir að verkið skyldi fara af stað áður en lokað var á allt.

En það er líka verið að umbreyta veglínunni til héraðsins. Til þessa hefur verið ekið um Burstafellsbrekkur og Hofsárdal. Framtíðarleiðin af hringveginum mun liggja um Vesturárdal og þar sér þegar móta fyrir nýja veginum. Þetta þýðir að innkeyrslan inn í Vopnafjarðarkauptún breytist. Þetta verður ekki fyrsta sjónarhornið heldur munu menn aka veginn um Vesturárdal og koma þá leiðina inn í þorpið. Nýja leiðin, með malbiki, á að vera tilbúin haustið 2011.

Þá verður flaggað og dansað. Þá verður sko hátíð í bæ, segir oddvitinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×