Lífið

Rekur Eurovision-útvarpsstöð á Netinu

Gunnar Ásgeirsson, útvarpsstjóri Eurorásarinnar.
Gunnar Ásgeirsson, útvarpsstjóri Eurorásarinnar.

Gunnar Ásgeirsson, 23 ára sýningarstjóri í Smárabíói, er útvarpstjóri í hjáverkum. Hann hefur komið sér upp litlu hljóðveri heima hjá sér í Garðabænum þar sem hann sendir út gömul og ný Eurovision-lög á Netinu.

Gunnar hefur fengið Írisi Hólm í lið með sér en hún er með kvöldþátt netstöðvarinnar. Þau hafa hins vegar aldrei hist.

„Nei, við höfum aldrei verið formlega kynnt, hún sendir bara út frá hljóðveri hljómsveitarinnar sinnar, Bermuda," segir Gunnar en Íris söng einmitt lagið The One í forkeppni Sjónvarpsins í ár.

Sjálfur hefur Gunnar komið sér upp hljóðnema og litlum hljóðblandara en Gunnar býr í foreldrahúsum í Garðabænum.

Íris Hólm verður með kvöldþátt stöðvarinnar, þrátt fyrir að hafa aldrei hitt útvarpsstjórann.

Gunnar segir þetta allt vera til gamans gert en útsending hefst klukkan tólf á hádegi. „Ég hef fengið mjög góð viðbrögð við þessu og fólk er bara ánægt með framtakið," segir Gunnar sem er sjálfur mikill Eurovision-maður eins og gefur að skilja.

„Ég hef haft gaman af þessari keppni og maður er alltaf pæla í því hvernig lög hin löndin eru að senda," segir Gunnar sem er sæmilega sáttur við íslenska lagið.

„Mér finnst lagið of „júróvisjónlegt". Ef maður skoðar lögin sem hafa verið að vinna undanfarin ár þá hafa þau ekki verið múlbundin í þeirri formúlu," segir Gunnar en bætir við að íslenska lagið hafi fengið ágætis viðbrögð á Netinu.

Sjálfur er hann hrifnastur af danska laginu og því sænska. „Það er ekki út af því að þau eru frá Norðurlöndunum heldur eru lögin sjálf flott." - fgg

Hægt er að hlusta á Eurovision-útvarpsstöðina á vefslóðinni eurorasin.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×