Innlent

Viðskiptaleg rök fyrir lögleiðingu spilavíta

Samtök ferðaþjónustunnar sjá ekkert athugavert við lögleiðingu á starfsemi spilavíta hér á landi. Ferðamálastofa segir viðskiptaleg rök fyrir lögleiðingunni vissulega vera fyrir hendi. Mörgum spurningum er þó ósvarað.

Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Icelandair í samvinnu við tvíburabræðurna Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni viðrað hugmynd um að opna spilavíti hér á landi.

Óskað var eftir því að Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, myndi kanna málið en í kjölfarið óskaði hún eftir umsögnum nokkurra fagaðila. Dómsmálaráðuneytið, Landlæknir, lögregla og ferðaþjónustan voru meðal annars beðin um að gefa óformlega umsögn um málið.

Umsögnunum átti að skila í síðasta lagi á föstudag en eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur landlæknir og lögregla ekki enn skilað sínum umsögnum, en vonast er eftir því að það gerist í dag.

Í svari sem Samtök ferðaþjónustunnar sendu vegna málsins kemur fram að stjórn samtakanna hafi rætt þetta á fundi og sjái ekkert athugavert við lögleiðinguna, svo framarlega sem góðar reglur verði settar og var þá sérstaklega rætt um Danmörku. Samtökin eru tilbúin að setja fulltrúa í starfshóp ef þess verður óskað.

Ferðamálastofa hefur einnig svarað erindinu og þar segir að vissulega séu viðskiptaleg rök fyrir hendi, en í svarinu kemur einnig fram að ekki sé litið til annarra þátta, svo sem siðferðislegra og lögfræðilegra í þeirri niðurstöðu.

Mörgum spurningum um þetta mál er þó ósvarað eins og til dæmis hvort leyfi verði veitt fyrir einu spilavíti eða hvort almenn lagabreyting um lögleiðingu spilavíta hér á landi verði niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×