Körfubolti

Heather Ezell: Það eru ennþá leikir eftir í þessu einvígi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heather Ezell skoraði 31 stig í kvöld.
Heather Ezell skoraði 31 stig í kvöld. Mynd/Daníel

Haukakonan Heather Ezell var að venju allt í öllu í liði Hauka í 75-79 tapi fyrir KR í undanúrslitum Iceland Express deild kvenna á Ásvöllum í kvöld.

Heather tókst að skora 31 stig þrátt fyrir að vera í gríðarlega öflugri gæslu allan leikinn. KR er þar með komið í frábæra stöðu og vantar aðeins einn sigur til þess að tryggja sér sæti í lokaúrslitunum.

„Það er mjög svekkjandi að vera svona nálægt sigri en ná ekki að klára þetta. Við gáfum allt í þennan leik en það er sumt sem við ráðum ekki við. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem allir gáfu allt sitt en það dugði bara ekki til," sagði Heather Ezell en hún vildi ekkert segja um varnarleikinn sem KR-konur fá að spila á móti henni.

„Við erum ekki búin að gefast upp. Við þurfum að fara út í KR og spila okkar besta leik því við vitum að við getum spilað á móti þeim. Við þurfum að byggja á leiknum í kvöld, hitta úr aðeins fleiri skotum og fá nokkra hluti í viðbót til þess að falla með okkur," sagði Heather og hún er tilbúin í marga leiki til viðbótar.

„Þetta er alls ekki búið og það er ástæða fyrir því að það þarf að vinna þrjá leiki til þess að komast áfram. Það eru ennþá leikir eftir í þessu einvígi," sagði Heather.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×