"Það vantaði bara herslumuninn hjá okkur í kvöld," sagði Henning Henningsson, þjálfari Hauka eftir 75-79 tap á móti KR í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í körfubolta. KR er þar með komið í 2-0 í einvíginu og vantar bara einn sigur til þess að komast í lokaúrslitin.
„Þær náðu aftur að ýta okkur út úr stöðunum. Það var það sem við ætlum að laga og náðum að laga að hluta til. Við náðum ekki að laga það nógu vel, þær náðu aftur að ýta okkur út úr okkar sóknarleik og við náðum ekki að setja hann upp eins og við ætluðum okkur," sagði Henning.
„Þetta er að sjálfsögðu erfið staða en það er leikur á föstudaginn og við ætlum okkur að vinna hann og freista þess að fá að koma aftur hingað á sunnudaginn og vinna þá aftur," sagði Henning en Haukar sýndu miklu betri leik í fyrsta leiknum sem liðið tapaði með 31 stigi.
„Þetta var miklu betri leikur hjá okkur en síðast og það var bara sorglegt að við skulum hafa boðið upp á þennan leik síðast. Við vorum leiðar yfir því en það var bara ekkert við því að gera. Við komum ágætlega til baka en það vantaði herslumuninn," sagði Henning og hann hefur fulla trú á sínum stelpum í næsta leik.
„Við ætlum að fara út í KR á föstudaginn til að vinna. Við ætlum ekki bara að gera okkar besta. Við komnar út í horn þannig að við þurfum á sigri að halda.