Körfubolti

Íris: Ekki alveg tilbúnar að fara í sumarfrí strax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði Hamars.
Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði Hamars. Mynd/Stefán
Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði Hamars, brosti út að eyrum eftir 81-75 sigur á KR í Hveragerði í dag en Hamar náði þar með að jafna úrslitaeinvígið í 2-2 og tryggja sér oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við byrjuðum ekki nógu vel og ég veit ekki af hverju. Við náðum okkur hinsvegar út úr því og fórum að spila okkar leik þegar leið á annan leikhlutann," sagði Íris eftir leikinn.

„Það skipti miklu máli fyrir okkur að allir voru að leggja sitt að mörkum til liðsins. Þetta hefði getað orðið síðasti leikurinn en við vorum ekki alveg tilbúnar að fara í sumarfrí strax," sagði Íris sem skoraði fimm af sjö stigum sínum á mikilvægum tímapunkti í lok þriðja leikhluta.

„Það var ótrúlegt að sjá alla þessa áhorfendur standa með okkur. Það er búið að vera troðfullt hús á hverjum einasta leik og það er æðislegt að spila svona leiki þegar það er svona mikil stemmning," sagði Íris.

Hamar lenti 1-2 undir á móti Keflavík en vann 3-2 og nú er liðið búið að jafna einvígið á móti KR í 2-2.

„Okkur hefur tekist að fara erfiðustu leiðina í þessu og vonandi náum við bara að klára þetta núna í oddaleiknum á þriðjudaginn. Við ætlum allavega að gefa allt í þann leik," sagði Íris að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×