Viðskipti erlent

Ólögleg lyf seld fyrir 1.750 milljarða í Evrópu

Ný rannsókn sýnir að einn af hverjum fimm Evrópubúum hefur keypt lyfseðilsskyld lyf á netinu án uppáskriftar frá lækni. Áætlað er að sala slíkra lyfja nemi um 10,5 milljörðum evra eða 1.750 milljörðum kr. á ári hverju.

Rannsóknin var studd fjárhagslega af bandaríska lyfjarisanum Pfizer en hún var gerð af Evrópusamtökunum fyrir aðgangi að öruggum lyfjum (EAASM). Í ljós kom að um 77 milljón manna í Evrópu keyptu fyrrgreind lyf á netinu.

Nærri 14.000 manns tóku þátt í rannsókninni, þar á meðal Íslendingar, og 21% þeirra kváðust hafa keypt lyf á netinu þar sem slíkt væri ódýrara og auðveldara en að nálgast þau í apótekum eða hjá læknum.

Í frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni segir að það geti verið hættulegt, og stundum valdið dauða, að kaupa þessi lyf á netinu þar sem þau geti innihaldið skaðleg aukaefni. „Fólk sem kaupir lyf á netinu á það á hættu að um gerfilyf sé að ræða," segir Jim Thompson formaður EAASM.

„Fólk gerir sér ekki bara grein fyrir því hversu hættulegt það er að kaupa fölsuð lyf á netinu heldur er það einnig að stuðla að ólöglegum glæpamarkaði með kaupunum," segir David Gillen læknastjóri Pfizer.

Rannsóknin náði til allra Norðurlandanna, Bretlands, Belgíu, Austurríkis, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Spánar, Sviss og Hollands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×