Erlent

Fyrsta góðgerðasamkoma verðandi prinsessu

Kate Middleton og Vilhjálmur kampakát á góðgerðasamkomunni á laugardagskvöld.mynd/ap
Kate Middleton og Vilhjálmur kampakát á góðgerðasamkomunni á laugardagskvöld.mynd/ap

Kate Middleton kom í fyrsta sinn fram opinberlega á laugardagskvöld eftir að tilkynnt var um trúlofun hennar og Vilhjálms Bretaprins.

Parið mætti saman á góðgerðasamkomu í Norfolk-sýslu til styrktar krabbameinssjúkum og vakti að vonum mikla athygli. Þetta voru ákveðin tímamót fyrir Middleton því þetta var sú fyrsta af fjölda góðgerðasamkoma sem hún verður viðstödd í framtíðinni.

Hin 28 ára Middleton verður ekki opinber hluti af konungs­fjölskyldunni fyrr en hún og Vilhjálmur ganga í hjónaband 29. apríl á næsta ári. Samt sem áður tók hún í fyrsta sinn þátt í árlegum jólahádegisverði í Buckingham-höll um helgina þar sem allt konungsfólkið var samankomið, þar á meðal Elísabet Englandsdrottning.

„Hún leit gullfallega út," sagði Sophie Pinasent, sem var viðstödd góðgerðasamkomuna í Norfolk, um Middleton. „Hún var yndisleg og þau litu út fyrir að vera mjög hamingjusöm. Mér fannst þetta mjög spennandi allt saman."

Það að Middleton hafi verið viðstödd þessa samkomu gefur til kynna að hún muni einbeita sér að stuðningi við krabbameinssjúka eftir að hún verður prinsessa.

Lítið er þó vitað um áhugamál hennar og því gætu annars konar góðgerðamál orðið fyrir valinu.

Á sama tíma og Middleton og Vilhjálmur voru á góðgerðasamkomunni var Harry, bróðir Vilhjálms, staddur í Berlín. Þar tók hann á móti verðlaunum fyrir mannúðarstarf sitt. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×