Innlent

Sjötugur karlmaður á batavegi

Þessi mynd var tekin af húsinu alelda um hálftíma eftir að eldurinn kom upp.Mynd/feykir
Þessi mynd var tekin af húsinu alelda um hálftíma eftir að eldurinn kom upp.Mynd/feykir

Sjötugur karlmaður sem slapp naumlega úr eldsvoða á Hofsósi aðfaranótt sunnudags er á batavegi. Hann dvaldi á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks í gær vegna skurðar á höndum og reykeitrunar.

Eldurinn kom upp í gömlu einbýlishúsi við Suðurbraut 23 og fékk lögreglan og slökkvilið tilkynningu um brunann klukkan hálfsex. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn og lauk slökkvistarfi klukkutíma síðar. Þá hafði allt brunnið sem brunnið gat og stóð aðeins steyptur strompurinn eftir. Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki hafði húsið verið í endurnýjun og var fyrir nokkrum árum klætt að hluta með timbri. Maðurinn bjó í viðbyggingu við húsið og varð var við eldinn eftir að reykskynjari fór af stað. Hann náði að brjóta sér leið út úr húsinu í gegnum glugga og skarst við það á höndum. Svo virðist sem eldurinn hafi fyrst komið upp í eldra húsinu og líklegt er talið að eldurinn hafi logað í þó nokkurn tíma áður en maðurinn vaknaði við reykskynjarann.

Maðurinn bjó einn í húsinu, sem stóð eitt og sér við Suðurbrautina. Þó nokkur spölur er í næstu hús og því voru íbúar þar aldrei í hættu. Hagstæð vindáttin hjálpaði þar einnig til og lagði glóðina og reykinn beint út á sjó. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×