Innlent

Leikskólagjöld hækka um áramótin

Börn að leik. Myndin er úr safni.
Börn að leik. Myndin er úr safni.

Breytingar verða á gjaldskrá leikskóla Reykjavíkur frá og með 1. janúar 2011. Við breytinguna hækkar fæðis- og námsgjald í 4-8 stundir um 5,35%. Gjöld umfram átta stunda vistun hækka ekki.

Fyrir hjón og sambúðarfólk með barn í átta stunda vistun hækkar gjaldið um 1.105 kr. á mánuði eða úr 20.655 kr. í 21. 760 kr. Gjald fyrir einstæða foreldra, öryrkja og foreldra sem báðir eru í námi hækkar um 653 kr. eða úr 12. 207 kr. í 12. 860 kr.

Ef annað foreldri er í námi hækka leikskólagjöld um 4.961 kr. mánuði eða úr 16. 799 kr. í 21.760 kr. Með hækkuninni er gjaldskráin einfölduð og færð til samræmis við úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem lán námsmanns skerðist ekki vegna tekna maka.

Um áramótin verða einnig breytingar á systkinaafslætti í þá veru að afsláttur vegna annars barns verður 75% af námsgjaldi í stað 100% en þriðja og fjórða systkinið nýtur 100% afsláttar af námsgjaldinu. Systkinaafsláttur reiknast eingöngu af námsgjaldi og nemur munur á 100 % afslætti og 75% afslætti 3.800 kr.

Námsgjald fyrir börn í elsta árgangi leikskóla verður það sama og fyrir yngri börn frá og með 1. september 2011. Breytingin hefur engin áhrif á gjald þeirra foreldra sem nú þegar njóta þessa afsláttar fyrir 5 ára börn.

Samkvæmt tilkynningu frá borginni hefur gjaldskráin ekki hækkað í tvö ár.

Hér fyrir neðan má svo nálgast töflu með nánari útlistunum á hækkuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×