Fótbolti

Einkunn Mourinho fyrir frammistöðu sína á árinu: 11 af 10 mögulegum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho, þjálfari Real Madrid.
José Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það þarf varla að spyrja af því en José Mourinho kemur fáum á óvart með því að vera einstaklega ánægður með árið sem er að líða. Hann vann þrennuna með Internazionale Milan og hefur gert góða hluti síðan að hann tók við Real Madrid.

„Þetta er búið að vera besta árið á ferlinum mínum. Ég myndi gefa sjálfum mér 11 í einkunn af 10 mögulegum," sagði José Mourinho í viðtali á RealMadrid.com.

„Ég vann alla titla sem ég keppti um á árinu og við eigum enn góða möguleika á að vinna alla titla með Real Madrid á þessu tímabili. Deildin er enn opin og við erum komnir í 16 liða úrslit í bæði Konungsbikarnum og í Meistaradeildinni," sagði Mourinho og bætti við:

„Við vorum líka besta liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þannig að tímabilið er búið að vera fullkomið hingað til," sagði Jose Mourinho. Hann stóðst heldur ekki að skjóta enn einu sinni á eftirmann sinn hjá Internazionale eftir að ítalska liðið tryggði sér Heimsmeistaratitil félagsliða.

„Ég er ánægður og stoltur af árangri Inter í Heimsbikarkeppni félagsliða. Það var mikil ánægja að fá að þjálfa þá alveg eins og það er að þjálfa Real madrid. Ég hefði samt haldið að Rafa Benitez myndi þakka mér fyrir að vinna þennan titil nánast fyrir hann en það væri best að spyrja stuðningsmenn Inter Milan hvað þeir halda," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×