Innlent

Burðardýr fíkniefna lengst vaktað í sautján sólarhringa

Óskar Halldórsson, aðalvarðstjóri í lögreglunni á Suðurnesjum, sýnir fréttamönnum Fréttablaðsins búnaðinn sem notaður er til að leita að fíkniefnabögglum sem smyglarar fíkniefna losa frá sér.fréttablaðið/vilhelm
Óskar Halldórsson, aðalvarðstjóri í lögreglunni á Suðurnesjum, sýnir fréttamönnum Fréttablaðsins búnaðinn sem notaður er til að leita að fíkniefnabögglum sem smyglarar fíkniefna losa frá sér.fréttablaðið/vilhelm

Lögreglumenn á Suðurnesjum hafa lengst þurft að vakta smyglara með fíkniefni innvortis í sautján sólarhringa.

Gunnar Schram yfirlögregluþjónn segir að lögregla fylgist með þeim hverja einustu mínútu allan sólarhringinn, þar til efnin hafa skilað sér niður.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur látið útbúa sérstakt salerni sem notað er þegar smyglararnir eru með efnin innvortis. Salernið er smíðað af hagleiksmanni í Keflavík og hefur hann komið í góðar þarfir. Áður var notast við ferðasalerni þar sem lögreglumenn þurftu að vera í óþægilegu návígi við úrganginn þegar verið var að leita að fíkniefnabögglunum.

Þessi búnaður er þannig úr garði gerður að bein renna liggur frá salerni í fangaklefa á lögreglustöðinni í eins konar kassa eða vask. Vaskurinn sá arna er algjörlega loftþéttur og úr honum liggur öflugt loftræstikerfi, þannig að frá honum berst engin lykt.

Tveir þykkir gúmmíhanskar eru fastir við op sem eru á hlið hans. Frágangur þeirra er með þeim hætti að ekkert loft kemst út um opin sem þeir eru festir við. Í þessa hanska smeygja menn sér þegar burðardýr hefur skilað efnunum af sér, sem fara þá eftir rennunni frá salerni í vaskinn.

Glerlok er á vaskinum sem gerir það að verkum að lögreglumenn sjá vel það sem þeir eru að fást við. Þá er skolslanga niðri inni í vaskinum, sem notuð er við aðgerðina. Í botni hans eru svo tvær grindur, eins konar síur sem koma í veg fyrir að fíkniefnapakki skolist niður.

Lögreglumenn sem Fréttablaðið ræddi við á Suðurnesjum segja þennan búnað gjörbyltingu frá því sem áður var.

Fyrirmyndina sáu þeir á Heathrow-flugvelli fyrir nokkrum árum og gerðu sér strax grein fyrir að svona búnaður myndi nýtast vel á Suðurnesjum, þar sem mörg burðardýr með efni innvortis koma í gegnum Leifsstöð. Sérstakar verklagsreglur hafa verið settar vegna notkunar á búnaðinum, rétt eins og gildir um önnur störf lögreglu, þannig að vinnuferli er skýrt, frá því að burðardýr er tekið, gegnumlýst og fært í fangaklefa og þar til fíkniefnin eru í hendi.

jss@frettabladid.is

FERÐASALERNI Var notað áður en búnaðurinn var tekinn í notkun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×