Erlent

Styrktir vegna málskostnaðar

Tveir bandarískir sálfræðingar skipulögðu pyntingaraðferðir leyniþjónustunnar. nordicphotos/AFP
Tveir bandarískir sálfræðingar skipulögðu pyntingaraðferðir leyniþjónustunnar. nordicphotos/AFP

Bandaríska leyniþjónustan CIA samþykkti að greiða að minnsta kosti fimm milljónir dala, eða hálfan milljarð króna, í lögfræðikostnað fyrir tvo sálfræðinga sem skipulögðu og tóku sjálfir þátt í vatnspyntingum á föngum.

Sálfræðingarnir Jim Mitchell og Bruce Jessen voru ráðnir til CIA sem verktakar og keyptu sér því ekki tryggingu gegn hugsanlegri lögsókn, eins og starfsfólki leyniþjónustunnar er jafnan gert að gera við ráðningu.

Þeir töldu hins vegar ástæðu til að fara fram á frekari vernd, og var orðið við því.

Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt að þrír fangar, sem árum saman hafa verið í fangabúðum Bandaríkjahers á Kúbu, hafi verið beittir svonefndum vatnspyntingum, sem felast í því að framkölluð er drukknunartilfinning.

Fyrir árásirnar á Bandaríkin haustið 2001 höfðu þeir Mitchell og Jessen árum saman starfað hjá Bandaríkjaher þar sem þeir kenndu hermönnum aðferðir til að standast pyntingar, og beittu þá pyntingaraðferðum á borð við þær sem síðar voru notaðar á fanga sem grunaðir voru um aðild að hryðjuverkum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×