Innlent

Tugur heimila uppvís að tryggingasvindli

Um tugur heimila á suðvesturhorninu hafa á þessu hausti orðið uppvís að því að svíkja bætur út úr Tryggingastofnun. Svikin komust upp eftir að lögregla mætti heim til fólks.

Fyrir einu og hálfu ári tók til starfa lítið teymi af fólki hjá Tryggingastofnun sem átti að fylgjast með því að ekki væri verið að svíkja bætur út úr kerfinu. Í því skyni var settur upp ábendingahnappur á forsíðu Tryggingastofnunar þar sem almennir borgarar gátu sent inn nafnlausar ábendingar.

Halla Bachmann Ólafsdóttir er forstöðumaður þessa eftirlits. Hún sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nokkrar ábendingar bærust á degi hverjum, og þær hafi margfaldast á þessu ári. Ljóst sé að fólk hafi ekki lengur þol gagnvart þeim sem svíki bætur út úr kerfinu.

Hún segist þakklát fyrir ábendingarnar sem borist hafa. Eftirlitsteymið hefur skoðað 498 mál það sem af er ári - meirihlutinn er tilkominn vegna ábendinga frá fólki út í bæ. Ýmislegt hefur komið út úr þeim málum. Meðal annars hefur eftirlitsteymi Tryggingarstofnunar tekist - með liðsinni Þjóðskrár og lögreglu - að svipta hulunni af um tug heimila sem sveik bætur út úr Tryggingastofnun þar sem mæður voru skráðar einstæðar en voru í raun og veru í sambúð.

Alls hefur lögregla heimsótt á annan tug heimila þar sem grunur lék á slíkum bótasvikum en um tugur reyndist sannur að sök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×