Fótbolti

Ná heimamenn stigi á HM í sumar?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Frá stúkunni fyrir leik Suður-Afríku og Namibíu.
Frá stúkunni fyrir leik Suður-Afríku og Namibíu.

Mikil eftirvænting ríkir í Suður-Afríku fyrir HM sem fram fer í landinu í sumar. Heimamenn eru þó alls ekki bjartsýnir fyrir gengi síns liðs og skyldi engan undra.

Liðið rétt náði jafntefli við Namibíu í vináttulandsleik í vikunni, aðeins þremur mánuðum fyrir stórmótið. Viðvörunarbjöllur hringja og heimamenn taldir líklegastir til að yfirgefa eigið samkvæmi fyrstir í sumar.

Mikil stemning var á vellinum fyrir leikinn gegn Namibíu, þjóð sem situr í 111. sæti á styrkleikalista FIFA. Suður-Afríka lenti undir en náði að jafna 20 mínútum fyrir leikslok.

Undirbúningur landsliðsins fyrir mótið hefði varla getað gengið verr. Liðið komst ekki einu sinni í úrslit Afríkumótsins sem fram fór fyrir skömmu. Átta tapaðir leikir af níu gerðu það að verkum að hinn brasilíski Joel Santana var látinn taka pokann sinn.

Í stað hans var ráðinn annar Brasilíumaður, Carlos Alberto. Meðal æfingaleikja sem Suður-Afríka hefur spilað fyrir mótið var hér á landi gegn Íslandi á Laugardalsvelli. Veigar Páll Gunnarsson skoraði eina mark leiksins og Ísland hrósaði sigri.

Það eru því ekki margar vísbendingar, ef þá nokkur, um að gestgjafarnir í Suður-Afríku muni gera gott mót í sumar. Nú þegar 97 dagar eru í HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×