Innlent

Tvíburarnir himnasending

Söngkonan Sigríður Beinteinsdóttir og unnusta hennar, Birna María Björnsdóttir, eiga von á tvíburum í maí á næsta ári.
Söngkonan Sigríður Beinteinsdóttir og unnusta hennar, Birna María Björnsdóttir, eiga von á tvíburum í maí á næsta ári. MYND/Valgarður

Söngkonan Sigríður Beinteinsdóttir og unnusta hennar, Birna María Björnsdóttir, eiga von á tvíburum í maí á næsta ári. Birna María gengur með börnin. Sigríður, sem verður 49 ára næsta sumar, segir þær svífa um á risastóru bleiku skýi. Sigríður vildi ekki upplýsa hvernig frjóvgunin hefði átt sér stað, sagði þær vilja halda því fyrir sig.

Sigríður er ein ástsælasta söngkona landsins, hefur tvívegis tekið þátt í Eurovision fyrir hönd Íslands og náði meðal annars þeim frábæra árangri að verða í fjórða sæti árið 1990. Sigríður hefur að undanförnu rekið söngskóla í Noregi, var í forsvari fyrir sjónvarpsþáttinn Röddin og hefur gefið út söngdiskana Söngvaborg sem eru einmitt hugsaðir fyrir yngstu kynslóðina. Sigríður segist í samtali við Fréttablaðið ætla að halda áfram starfinu í Noregi þrátt fyrir mikla breytingu á högum sínum.

„Helst vildi maður auðvitað bara einbeita sér að uppeldinu og ef maður fengi stóran lóttóvinning myndi maður ekki hika við það," segir Sigríður, nýkomin heim af Skagaströnd þar sem hún söng fyrir fullu húsi. „Þeir keyptu bara tónleikana mína eins og þeir lögðu sig, voru svo hrifnir af þeim."

Þetta verða fyrstu börn Sigríðar og söngkonan segist ekki hafa hugmynd um hvað hún sé að leggja út í.

„Ég hef alltaf elskað börn og á mörg frændsystkini, ég hlakka bara ótrúlega mikið til þótt ég viti að þetta verði mikil vinna. Enda tvö stykki." Sigríður segist á hinn bóginn ekki hafa getað óskað sér neins meira. "Þetta er bara alveg æðislegt."

freyrgigja@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×