Viðskipti innlent

Sérfræðingar skoða álitamál um ráðherraábyrgð

Sigríður Mogensen skrifar
Þingmannanefnd sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur falið þremur sérfræðingum að skoða álitaefni sem varða ráðherraábyrgð. Búist er við skýrslu frá þeim í ágúst en eftir það verður væntanlega tekin ákvörðun um það hvort landsdómur verður kallaður saman í fyrsta sinn.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem birt var þann 12. apríl á þessu ári að þrír ráðherrar hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga um nefndina, í aðdraganda falls íslensku bankanna með því að láta hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnahagslíf, sem versnandi staða bankanna hafði í för með sér. Þetta eru Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra.

Níu manna þingnefnd, með Atla Gíslason í fararbroddi, er ætlað að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum þingsins við niðurstöðum hennar. Þingmannanefndin hefur þannig það hlutverk að stuðla að pólitísku uppgjöri á efnahagshruninu.

Nefndin hefur nú falið þremur sérfræðingum að skoða nánar álitaefni varðandi ráðherraábyrgð, en það er hlutverk hennar að skera úr um hvort tilefni sé til að Alþingi höfði mál gegn þeim ráðherrum sem sakaðir eru um vanrækslu í starfi. Sérfræðingarnir eru Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við HR og Sigríður Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari. Von er á að þau skili niðurstöðum sínum til nefndarinnar þegar hún kemur saman að nýju í ágúst.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×