Handbolti

Siggi Bjarna: Kemur ýmislegt í ljós í dag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur.
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur.

Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis, bíður spenntur eftir leik Íslands og Austurríkis í dag. Sigurður segir að það muni fást svör við mörgum spurningum í þessum leik.

„Það er allt undir í þessum leik. Þessi leikur ræður framhaldinu. Karakterinn mun koma í ljós og við munum fá svör við mörgum spurningum eins og hvort þjálfarinn sé að kikna undan pressunni eftir silfrið. Það kemur ýmislegt í ljós á eftir," sagði Sigurður sem er samt bjartsýnn fyrir leikinn.

„Ég þykist þekkja mína menn. Það er nú iðulega þannig að þegar menn verða fyrir smá áfalli þá taka þeir sig í gegn og mæta verulega grimmir í næsta leik.

Þetta verður samt erfiður leikur. Ég held að menn munu keyra á fullu í 60 mínútur núna. Ef það gerist þá vinnum við þetta örugglega. Ég hef enn mikla trú á strákunum en ef þessi leikur tapast þá er eitthvað í gangi í hópnum," sagði Sigurður sem var ekki alveg nógu ánægður með Guðmund þjálfara í síðasta leik.

„Mér fannst hann á köflum taka rangar ákvarðanir. Hann hefði til að mynda mátt spila Aroni og Ásgeiri Erni meira. Það var ekki gott fyrir Aron að fá á sig einn ruðning og vera síðan kippt af velli. Ég vona að Guðmundur afskrifi hann ekki í kjölfarið. Hann verður líka að rúlla liðinu meira. Hann byrjaði á því í leiknum gegn Serbum en hætti því svo. Það er ekki gott þegar menn hætta með þá taktík sem var í gangi í undirbúningnum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×