Handbolti

Gunnar Magnússon: Þeir voru miklu hungraðri og miklu betri en við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari HK.
Gunnar Magnússon, þjálfari HK. Mynd/Anton
Gunnar Magnússon, þjálfari HK, var allt annað en sáttur með sína menn eftir 30-34 tap fyrir Akureyri á heimavelli í N1 deild karla í handbolta í kvöld í einum af úrslitaleikjunum um síðustu sætin inn í úrslitakeppnina.

„Við vorum engan veginn tilbúnir. Það má hrósa Akureyri fyrir það að þeir voru betri á öllum sviðum og mættu tilbúnir. Þeir ætluðu sér að ná þessu fjórða sæti og voru miklu hungraðri og miklu betri en við í dag. Það er bara staðreynd sem við verðum að eiga við okkur sjálfa," sagði Gunnar eftir leikinn.

„Hver einasti leikur fyrir okkur er úrslitaleikur. En við erum bara með þannig lið að við erum ekki búnir að ná upp stöðugleika ennþá og erum bara að vinna í því. Við vinnum Val á útivelli einn daginn en næsta dag erum við eins og byrjendur. Ef við náum upp þessum stöðugleika þá getum við farið í úrslitakeppnina en ef ekki þá verður þetta mjög erfitt," segir Gunnar. HK á leik inni á Akureyri og getur því aftur minnkað muninn í eitt stig.

„Við þurfum bara að svara fyrir okkur á sunnudaginn. það er það eina sem við getum gert. Við þurfum að þjappa okkur saman og koma sterkir til baka en þetta var ekki boðlegt," sagði Gunnar en HK mætir Stjörnunni á útivelli á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×